Skoðun

Inn­rás á Rafah stríðir gegn allri mann­úð

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar

Í meira en hálft ár hefur Ísraelsher staðið fyrir linnulausum árásum á almenna borgara á Gaza. Enginn er óhultur á svæðinu á meðan bæði landhernaður og drónaárásir ógna lífum. Á Gaza stendur nú yfir ein versta mannúðarkrísa síðari ára en Ísraelsher hefur einnig tafið fyrir eða stöðvað birgðasendingar með hjálpargögn inn á svæðið. Alþjóðadómstóllinn komst í vetur að þeirri niðurstöðu að mögulega væri um að ræða þjóðarmorð.

Það er algjörlega óásættanlegt að Ísrael ráðist inn í Rafah. Þangað hefur yfir milljón manna flúið, en fólkið hefur í raun ekki til neins annars staðar að hverfa, enda Gaza-svæðið að stórum hluta til rústir einar. Volker Türk mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur sagt skipanir Ísraelsmanna séu ómannúðlegar og fari gegn alþjóðalögum. Að beita hernaði sem bitnar beint á óbreyttum borgurum sem ekki geta flúið stríðir gegn allri mannúð.

Ísland hefur notað sína rödd til að tala fyrir friði. Þann 9. nóvember síðastliðinn samþykkti Alþingi þingsályktun þar sem þess er krafist að komið verði á vopnahléi án tafar. Ísland styður tveggja ríkja lausnina og hefur viðurkennt Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki síðan 2011. Ísrael verður að láta af hernámi Vesturbakkans og hætta stríðsrekstrinum á Gaza. Aðeins þannig getur tveggja ríka lausnin raungerst, sem er forsenda friðar á svæðinu.

Nú skiptir mestu að koma á friði með því að alþjóðasamfélagið beiti sér af enn meiri krafti. Bandaríkin hafa þar mest að segja en sem kunnugt er hafa þau ítrekað beitt neitunarvaldi sínu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Gera verður þá kröfu að Bandaríkin beiti Ísraelsstjórn stórauknum þrýstingi um að leggja niður vopn.

Staðan á Gaza er óbærileg og Ísraelsmenn verða að láta af ofbeldinu.

Höfundur er formaður VG og félags- og vinnumarkaðsráðherra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×